Innlent

Framleiðsla á neftóbaki aukist um 15 tonn á örfáum árum

„Til þess að setja þetta í eitthvað samhengi, þá er framleiðsla ÁTVR orðin 30 tonn af neftóbakinu, en árið 2006 voru þetta 15 tonn," segir Viðar Jensson, sem fer fyrir tóbaksvarnarmálum hjá Landlæknaembættinu, í viðtali í Reykjavík síðdegis í dag.

Þar var rætt um alvarleika munntóbaks en Fréttablaðið greindi frá því í dag að tannlæknar væru farnir að sjá alvarlegar skemmdir á tönnum og tannholdi ungra karlmanna vegna neftóbaksins sem notað er sem munntóbak hér á landi.

En það er ljóst að neftóbaksnotkun hefur aukist gífurlega á síðustu árum, eða um helming. Þannig nota 20 prósent karlmanna á aldrinum 16 til 23 ára tóbakið reglulega en aðeins eitt prósent kvenna.

Viðar bendir hinsvegar á að neftóbakið hefur ekki verið rannsakað nærri því jafnvel og reykingar, þar sem langtímarannsóknir hafa sýnt fram á að nær helmingur reykingarfólks fellur fyrir aldur fram.

Hægt er að hlusta á viðtal Reykjavík síðdegis við Viðar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×