Fótbolti

Ronaldo fór ekki í fýlu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Paulo Bento, landsliðsþjálfari Portúgals, segir ekkert hæft í þeim sögusögnum að ósætti hafi ríkt á milli hans og Cristiano Ronaldo eftir tapið gegn Þýskalandi á EM á dögunum.

Ronaldo fór umsvifalaust af velli og inn í búningsklefa eftir leikinn. Og Bento hefur ákveðinn skilning á því en Portúgal mætir Danmörku á EM í dag.

„Við bregðumst ekki öll eins við vonbrigðum og erfiðum aðstæðum. Ég hef ákveðinn skilning á viðbrögðum Cristiano," sagði Bento. „En ef það eru einhverjir sem hafa rétt á því að vera óánægðir með eru það stuðningsmennirnir heima. Ég bið þá afsökunar."

Fjölmiðlar í Portúgal sögðu sumir frá því að Ronaldo hefði ekki verið með á æfingu daginn eftir leik en Bento sagði það rangt.

„Það voru 23 leikmenn á æfingunni og Ronaldo hefur ekki misst af einni æfingu hér úti. Hann spilaði mjög vel í leiknum á laugardaginn og verður með gegn Danmörku."

Nani, leikmaður Manchester United, sagði hegðun Ronaldo eftir leik eiga sér eðlilegar skýringar. „Hann fór ekki til stuðningsmanna eftir leikinn þar sem hann átti í smá vandræðum með bakið. Hann fór beint inn til læknanna okkar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×