Íslenski boltinn

Brynjar Björn spilar með KR í sumar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brynjar Björn í kapphlaupi við Carlos Tevez í bikarleik gegn Manchester City.
Brynjar Björn í kapphlaupi við Carlos Tevez í bikarleik gegn Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Brynjar Björn Gunnarsson, atvinnumaður í knattspyrnu hjá Reading í Englandi, hefur ákveðið að leika með Íslands- og bikarmeisturum KR í sumar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun. Samningur Brynjars Björns við Reading rennur út í vor.

Brynjar Björn er uppalinn í Vesturbænum og lék með KR áður en hann hélt í atvinnumennsku.

„Staðan er þannig að ég mun kveðja Reading í vor og flytja heim. Það þarf eitthvað dramatískt að gerast svo það breytist. Ég held að ég geti skilið við þennan kafla bara mjög sáttur," segir Brynjar í viðtali við Morgunblaðið.

Brynjar sem verður 37 ára á árinu hélt í atvinnumennsku árið 1997. Eftir tvö ár á Norðurlöndum þar sem hann lék með Vålerenga og Örgryte hélt hann til Englands þar sem hann hefur leikið síðan. Fyrst var hann hluti af Íslendingaliði Stoke áður en Nottingham Forest og Watford nutu krafta kappans. Frá árinu 2005 hefur hann leikið með Reading.

Rúnari Kristinssyni, þjálfara KR, verður töluverður vandi á höndum þegar kemur að því að velja í liðið næsta sumar. Bjarni Guðjónsson, Baldur Sigurðsson, Viktor Bjarki Arnarsson og Egill Jónsson hafa barist um sæti í liðinu undanfarin ár. Þá gekk Akureyringurinn Atli Sigurjónsson nýverið til liðs við félagið.

Ljóst er að Brynjar Björn mun styrkja KR-liðið mikið en kappinn hefur verið atvinnumaður frá árinu 1998 og á að baki 74 A-landsleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×