Enski boltinn

Suarez segir að mótlætið muni efla sig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Luis Suarez verður í eldlínunni um helgina þegar að Manchester United tekur á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Það má búast fastlega við því að hann fái heldur óblíðar mótttökur hjá stuðningsmönnum United.

Suarez er nýbúinn að taka út átta leikja bann fyrir kynþáttaníð gagnvart Patrice Evra, leikmanni Manchester United. Sjálfur fékk Evra að kenna á því hjá stuðningsmönnum Liverpool þegar liðin áttust við í ensku bikarkeppninni á Anfield í síðasta mánuði.

Hann kom inn á sem varamaður í leik Liverpool og Tottenham á mánudagskvöldið og var ekki lengi að ná sér í gult spjald fyrir að sparka í Scott Parker, leikmann Tottenham.

Suarez var í viðtali við útvarpsstöð í heimalandinu Úrúgvæ vegna leiksins um helgina og sagðist fara á Old Trafford með hreina samvisku. „Ég veit að þetta verður strembið gegn United vegna þess að ég mun mæta Evra á ný. En ég er vanur því að áhorfendur blístri á mig."

„Ég vona að ekkert óeðlilegt muni gerast. Ég verð að gleyma því sem gerðist en ég veit að stuðningsmenn United munu reyna að koma mér úr jafnvægi. En þeir verða samt að vita að slík hegðun mun aðeins efla mig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×