Íslenski boltinn

KR-ingar skoruðu níu mörk gegn ÍR - sjáið mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason.
Kjartan Henry Finnbogason. Mynd/Daníel
KR-ingar tryggðu sér sæti í undanúrslitum Reykjavíkurmóts karla í fótbolta í dag með því að vinna 9-0 stórsigur á ÍR í Egilshöllinni. Framarar fara einnig í undanúrslitin þrátt fyrir að þeir gerðu bara jafntefli við Leikni en Breiðhyltingar hefðu með sigri farið áfram á kostnað KR-inga.

Kjartan Henry Finnbogason skoraði þrennu fyrir KR, Óskar Örn Hauksson var með tvö mörk og þeir Bjarni Guðjónsson, Viktor Bjarki Arnarsson og Magnús Már Lúðvíksson skoruðu eitt mark hver. KR var 6-0 yfir í hálfleik. Sporttv sýndi leikinn í beinni og það má sjá öll mörkin í leiknum með því að smella hér.

Samuel Hewson kom Fram í 1-0 á móti Leikni með mark úr vítaspyrnu en Vigfús Arnar Jósepsson jafnaði leikinn fyrir hlé og þannig urðu lokatölurnar. Sporttv sýndi leikinn í beinni og það má sjá öll mörkin í leiknum með því að smella hér.

Fram fékk 10 stig og vann riðilinn. KR varð í öðru sæti með sjö stig og betri markatölu en Leiknir sem fékk líka sjö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×