Enski boltinn

Fyrsti bikarsigur QPR í 17 tilraunum - Bolton komst áfram

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gabbidon skorar sigurmarkið og tryggir QPR sæti í 4. umferðinni.
Gabbidon skorar sigurmarkið og tryggir QPR sæti í 4. umferðinni. nordic photos / getty images
Heiðar Helguson kom inná sem varamaður í síðari hálfleik þegar QPR vann 1-0 sigur á MK Dons í 3. umferð enska bikarsins í kvöld. Grétar Rafn Steinsson var ekki í leikmannahópi Bolton sem vann 2-0 sigur á Macclesfield Town.

QPR lenti í miklu basli með spræka liðsmenn MK Dons á Loftus Road í kvöld. Gestirnir voru síst lakari aðilinn í leiknum og virtist nýr knattspyrnustjóri QPR, Mark Hughes, nokkuð áhyggjufullur á hliðarlínunni.

Á 72. mínútu skipti Hughes Heiðari Helgusyni inná og innan við hálfri mínútu síðar lá boltinn í netinu. Varnarmaðurinn Danny Gabbidon skallaði þá knöttinn í netið eftir hornspyrnu, hans fyrsta mark í sjö ár. Gestirnir voru aldrei líklegir til þess að jafna eftir þetta og QPR tryggði sér sæti í 4. umferð þar sem liðið tekur á móti Chelsea.

Sigur QPR var líka athyglisverður fyrir þær sakir að liðið hafði ekki unnið sigur í FA-bikarnum í síðustu 16 leikjum sínum í keppninni.

Sigur hjá Bolton - Beckford og Henderson með þrennur

Á Reebok-vellinum í Bolton unnu heimamenn þægilegan sigur á Macclesfield Town. Kevin Davies kom heimamönnum yfir á fyrstu mínútu og Búlgarinn Martin Petrov bætti við öðru marki um miðjan fyrri hálfleikinn. Fleiri urðu mörkin ekki og Bolton tekur á móti Swansea í 4. umferðinni.

Þá vann Leicester 4-0 stórsigur á Nottingham Forest í uppgjöri Championship-liðanna. Jermaine Beckford skoraði þrennu fyrir lærisveina Sven Göran Eriksson. Darius Henderson var einnig á skotskónum og skoraði þrennu í 4-0 sigri Millwall á D-deildarliði Dagenham & Redbridge.

Leikir í 4. umferð bikarkeppninnar fara fram helgina 28. - 29. janúar.

Fylgst var með öllum leikjunum hér á boltavakt Vísis eins og sjá má hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×