Enski boltinn

Tottenham í undanúrslit enska bikarsins - vann Bolton 3-1

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tottenham tryggði sér sæti í undanúrslitum enska bikarsins eftir 3-1 sigur á Bolton í leik liðanna í átta liða úrslitunum á White Hart Lane í kvöld. Leikurinn var endurtekinn eftir að fyrri leikurinn var flautaður af þegar Fabrice Muamba hneig niður rétt fyrir hálfleik í stöðunni 1-1. Tottenham mætir Chelsea í undanúrslitaleiknum sem fer fram á Wembley.

Tottenham var í stórsókn nær allan leikinn en þurfti að bíða lengi eftir mörkunum. Ádám Bogdán átti frábæran leik í marki Bolton fram eftir leik og varði hvað eftir annað frá sóknarmönnum Tottenham.

Bogdán gerði hinsvegar mistök á 74. mínútu þegar hann missti af boltanum. Ryan Nelsen nýtti sér það og kom Tottenham í 1-0 með skalla eftir hornspyrnu frá Rafael van der Vaart.

Gareth Bale kom Tottenham síðan í 2-0 aðeins tveimur mínútum síðar eftir að hafa fengið stungusendingu frá varamanninum Jermain Defoe.

Kevin Davies setti spennu í leikinn með því að minnka muninn í 2-1 á 90. mínútu en Louis Saha innsiglaði 3-1 sigur Tottenham með síðustu spyrnu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×