Enski boltinn

Andy Carroll: Ég elska að vera hjá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andy Carroll, fagnar hér marki Daniel Agger ásamt félögum sínunm.
Andy Carroll, fagnar hér marki Daniel Agger ásamt félögum sínunm. Mynd/Nordic Photos/Getty
Andy Carroll, framherji Liverpool, segist vera ánægður hjá félaginu og að hann hafi engan áhuga á því að yfirgefa Anfield þrátt fyrir brösuga byrjun. Carroll átti þátt í báðum mörkum Liverpool í 2-1 bikarsigri á Manchester United um helgina.

„Ég er bara hér. Ég hef skrifað undir samning og þetta er liðið sem ég er að spila fyrir," sagði Andy Carroll en um helgina voru fréttir af því að Liverpool hafi boðið hann í skiptum fyrir Carlos Tevez.

„Ég elska að vera hjá Liverpool. Allir strákarnir eru frábærir við mig á æfingunum og utan æfinganna hafa allir tekið mér mjög vel," sagði Carroll.

Andy Carroll hefur aðeins skorað sex mörk fyrir Liverpool síðan að Kenny Dalglish gerði hann að dýrasta fótboltamanni Bretlandseyja með því að kaupa hann á 35 milljónir punda frá Newcastle fyrir ári síðan.

„Ég sé ekki eftir því að hafa komið hingað. Félagið hefur verið mér gott og ég nýt mín hér. Það var frábært að slá út Manchester City í vikunni og komast í úrslitaleikinn og fylgja því síðan eftir með því að slá út Man U," sagði Carroll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×