Enski boltinn

Redknapp mun stýra Tottenham á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kevin Bond, aðstoðarstjóri Tottenham, segir að Harry Redknapp muni stýra liðinu gegn Watford í ensku bikarkeppninni annað kvöld þrátt fyrir réttarhöldin sem nú eru í gangi.

Redknapp er sakaður um skattsvik en mál hans er nú í meðferð hjá dómstólum í Bretlandi. Af þeim sökum hefur hann ekkert getað stýrt æfingum í vikunni.

Bond segir að atvik utan vallarins hafi engin áhrif á störf hans hjá félaginu. „Hann er vissulega ekki á æfingunum en annars hefur lítið breyst hjá okkur í vikunni," sagði Bond við enska fjölmiðla. „Æfingarnar eru ósköp hefðbundnar. Fyrir nokkrum vikum fór hann í hjartaaðgerð og þá var þetta eins. Við erum því vanir þessu."

Bond hefur verið í reglulegum samskiptum við Redknapp sem hefur neitað sök í báðum ákæruliðum. Talið er að réttarhöldin taki enda í lok næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×