Enski boltinn

Nani fór fram á of há laun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Forráðamenn rússneska félagsins Zenit í St. Pétursborg segja að of háar launakröfur hafi verið ástæðan fyrir því að félagið festi ekki kaup á Nani, leikmanni Manchester United.

Zenit setti þó það ekki fyrir sig að eyða 80 milljónum evra í þá Hulk og Axel Witsel sem báðir gengu til liðs við félagið í síðustu viku.

Nani var einnig í sigtinu hjá Zenit en hann á tvö ár eftir af núverandi samningi sínum við United.

„Ef Hulk hefði farið fram á 8-10 milljónir evra í árslaun hefði það verið óásættanlegt fyrir Zenit," sagði Maxim Mitrofanov, framkvæmdarstjóri félagsins, við rússneska miðla.

„Það er aðalástæðan fyrir því að kaupin á Nani gengu ekki í gegn. Hann fór fram á ógnarhá laun og við vildum ekki mæta þeim kröfum."

Hann sagði einnig að félagið hefði verið að eltast við Joao Moutinho sem var nálægt því að ganga í raðir Tottenham í síðustu viku. „En Hulk og Witsel voru efstir á óskalistanum okkar," sagði Mitrofanov.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×