Erlent

Schwarzenegger viðurkennir syndir sínar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Arnold Schwarzenegger og Maria Shriver eiginkona hans.
Arnold Schwarzenegger og Maria Shriver eiginkona hans. mynd/ afp.
Daginn eftir að Arnold Schwarzenegger lét af embætti ríkisstjóra í Kaliforníu, eða 4. janúar í fyrra, viðurkenndi hann fyrir Mariu Shriver, eiginkonu sinni, að húsfreyja þeirra hjóna hefði alið barn hans. Þetta kemur fram í nýrri ævisögu Schwarzeneggers sem kemur út í næsta mánuði. Þetta ku vera í fyrsta sinn sem Schwarzenegger tjáir sig um málið.

Hjónin Arnold og Maria voru í hjónabandsráðgjöf þegar ráðgjafi þeirra bar þessar ásakanir Mariu undir Arnold, eftir því sem fram kemur í frétt New York Daily News, sem hefur eintak af bók Schwarzeneggers undir höndum. Hann viðurkenndi strax að hann ætti strákinn, með húsfreyjunni sem heitir Mildred Baena.

Fram kemur í ævisögunni, sem ber titilinn "Total Recall: My Unbelievably True Life Story," að sonur Schwarzeneggers og Baena var getinn í gestahúsi þeirra hjóna í Kaliforníu á meðan Shriver var í ferðalagi. Á þeim tíma var Schwarzenegger að leika Frosta í myndinni Batman og Robin. Sonurinn fæddist svo árið 1997.

Schwarzenegger og Shriver eru skilin að borði og sæng.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×