Innlent

Tókst að kortleggja tilhugalíf hvítra hákarla

Vísindamönnum hefur tekist að kortleggja tilhugalíf hvítra hákarla og þar með skilja betur hvernig þetta hættulegasta rándýr heimsins hegðar sér.

Fjallað er um málið í nýlegu hefti af tímaritinu Nature. Þar segir að aldrei áður hafi tekist að fylgjast með tilhugalífi hvítra hákarla.

Vísindamönnum í Kaliforníu tókst fyrir nokkru síðan að setja merki á 53 slíka hákarla og fylgjast þannig með þeim í gegnum gervihnetti. Í ljós kom að einu sinni á ári safnast þeir saman á hafsvæði í austanverðu Kyrrahafi.

Þar taka þeir, það er bæði kynin, að synda niður á allt að 500 metra dýpi í sífellu. Kvendýrin þó sýnu grynnra en karldýrin.

Þessar dýfur eru ekki í neinu samhengi við fæðuöflun því engin bráð er til staðar fyrir hákarlana á þessum slóðum.

Vísindamennirnir telja að með þessum dýfum séu karldýrin að sýna hinu kyninu í hve frábæru formi þeir séu og því góðir til undaneldis.

Eitt er þó víst. Tilhugalífið er mjög ofbeldisfullt og kvendýrin eru fljót að yfirgefa svæðið, yfirleitt með bitsár á skrokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×