Enski boltinn

Sky Sports: Chelsea búið að samþykkja tilboð QPR í Alex

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex í baráttu við Craig Bellamy.
Alex í baráttu við Craig Bellamy. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sky Sports hefur heimildir fyrir því að Chelsea hafi samþykkt tilboð Queens Park Rangers í brasilíska varnarmanninn Alex. Alex bað um að vera settur á sölulista í desember og nú virðist hann vera á leiðinni á Loftus Road.

Mark Hughes, nýr stjóri Queens Park Rangers, setti það sem forgangsatriði að félagið myndi kaupa Alex en liðið þarf nauðsynlega að styrkja sig ef það ætlar að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni.

Chelsea er að ganga frá kaupum sínum á Gary Cahill á Bolton og hefur því efni á því að láta frá sér brasilíska miðvörðinn. Alex hefur verið í eigu Chelsea frá 2004 en var fyrstu þrjú árin í láni hjá PSV Eindhoven. Hann hefur lítið fengið að spila hjá Andre Villas-Boas.

Chelsea hafnaði fyrsta tilboði QPR í leikmanninn í byrjun janúar en sættist á endurbætt tilboð í gær. Alex er 29 ára gamall og mun væntanlega spila við hlið Anton Ferdinand í miðri vörn Queens Park Rangers.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×