Lífið

Einstök verk Emils vekja eftirtekt

Grafíski hönnuðurinn Emil Ásgrímsson vekur athygli í hönnunarheiminum í London fyrir klippiverk sín.
Grafíski hönnuðurinn Emil Ásgrímsson vekur athygli í hönnunarheiminum í London fyrir klippiverk sín.
„Það er frekar skrýtin tilfinning að lesa um sjálfan sig og verk sín á netinu,“ segir Emil Ásgrímsson útskriftarnemi í grafískri hönnun við Central St. Martins í London.

Emil opnaði fyrstu sýningu sína í London í gærkvöldi og hefur fengið töluverða athygli í erlendum hönnunarmiðlum. Verk hans eru svokölluð klippiverk þar sem tískuljósmyndum er blandað saman við ólíkar landslagsmyndir. „Faðir minn er jarðfræðingur og það að hafa íslenskt landslag tengist æskuminningum mínum.“

Sýning Emils er í galleríinu The Book Club í London en það kom Emil, sem útskrifast ekki fyrr en í vor, mikið á óvart að vera boðið að sýna þar. „Maður verður að grípa öll þau tækifæri sem gefast og þó að ég sé á fullu í lokaverkefninu ákvað ég að taka þátt í sýningunni. Maður vonar svo að það opnist einhverjar dyr í kjölfarið,“ segir hann en öll verk Emils eru til sölu á um 20.000 ísk.

Vefmiðlarnir digitalartsonline.co.uk, designweek.co.uk og imperica.com fara fögrum orðum um kappann. „Það má vera að Emil sé ennþá nemi en það er ekki að sjá á verkum hans, sem eru samblanda af tísku- og landslagsmyndum. Þær bera vott um bæði þroska og æskuljóma,“ segir í umfjöllun Digital Arts Online.

Emil sérhæfir sig í hreyfimyndagerð og ætlar sér að fara að vinna að námi loknu. „Maður er umvafinn snillingum hérna, bæði nemendum og kennurum. Þetta er samt rosalega harður heimur og mikil samkeppni í öllu. Manni er samt farið að lengja í laun eftir að hafa verið á framfærslu LÍN í fjögur ár.“ Hægt er að skoða verk Emils nánar á síðunni emilasgrimsson.com. -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.