Innlent

Hvalaskoðarar fengu áfallahjálp eftir strand

Báturinn sigldi of nálægt Lundey við fuglaskoðun.
Báturinn sigldi of nálægt Lundey við fuglaskoðun. Fréttablaðið/pjetur
„Báturinn var við Lundey að skoða fugla í blíðu veðri þegar hann strandaði,“ segir Þorsteinn Jóhannesson, framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Norðursiglingar, sem gerir meðal annars út bátinn Hauk. Haukur strandaði með 37 farþega innanborðs við Lundey á Skjálfanda í gær.

Að sögn Þorsteins var aldrei nein hætta á ferð fyrir farþegana og báturinn skemmdist lítið sem ekkert. Annar bátur Norðursiglingar mætti snemma á staðinn ásamt björgunarsveit og hafist var handa við að ferja fólkið á milli báta. Haukur var síðan dreginn á flot á nýjan leik skömmu síðar.

Þegar í land var komið var farþegunum boðið upp á áfallahjálp í fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Húsavík. Læknar ávörpuðu farþegahópinn, lýstu síðbúnum einkennum áfalla og hvöttu fólkið til að styðja við hvert annað ef því liði illa.

En hefur þetta hent áður? „Allavega ekki á meðan ég hef starfað hjá fyrirtækinu,“ segir Þorsteinn, en tekur þó fram að hann hafi ekki unnið þar í mörg ár. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×