Innlent

Óhugur í Siglfirðingum eftir skjálftana

Kristján Már Unnarsson skrifar
Óhugur er í Siglfirðingum eftir öfluga skjálftahrinu frá því í gærkvöldi. Þar hrundi úr hillum í nótt og rúður sprungur þegar skjálfti upp á 5,6 stig reið yfir, sem er sá stærsti sem komið hefur norðanlands frá Kópaskersskjálftanum árið 1976. Jarðskjálftafræðingur segir að menn þurfi að búa sig undir stærri skjálfta nær Skjálfandaflóa.

Öflugustu skjálftarnir hafa fundist um allt Norðurland og allt vestur til Vestfjarðar en mest hafa áhrifin verið á Siglufirði þar sem fólk gat lítið sofið frameftir nóttu.

„Maður varð var við það í nótt að fólk var að fara út og keyra svona aðeins rúntinn um bæinn og róa sig niður," segir Guðmundur Skarphéðinsson, íbúi á Siglufirði.

„Stærsti skjálftinn þarna í nótt var um hálftvö í nótt. Hann er um 5,6 stig. Það er mjög eðlilegt að fólk hafi fundið hann vel fyrir norðan," segir Ragnar Stefánsson, jarðfræðingur.

Og heyrum lýsingarnar.

„Það hristist hér allt og skalf og þegar að skjálftarnir voru að koma var næstum eins og flutningabíll hefði keyrt inn í húsið," segir Rósa Jónsdóttir frá Siglufirði.

Í apótekinu mátti sjá fyrir innan gluggana að ýmislegt lauslegt hafði hrunið úr hillunum og sama gerðist í Samkaupum.

„Þetta byrjaði svona um ellefu leytið, bara einn skjálfti. Ég hélt þetta væri bara búið þá en svo hélt þetta áfram í um tvo klukkutíma stanslaust," segir Þorsteinn Sveinsson, tónlistarkennari.

En þá átti sá stóri eftir að koma, sem dýrin skyjuðu á undan mannfólkinu.

„Ég er með hérna nokkra ketti. Rétt áður bara trylltust þeir alveg. Þeir voru þeir einu sem gerðu rétt, hlupu hérna undir skáp," segir Þorsteinn.

„Það er óhugur í fólki, hræðsla. Maður heyrði af því í nótt að fólk var að taka sig saman. Þeir sem voru einir fluttu sig milli húsa. Það er auðvitað mjög mikilvægt að fólk sé saman þegar svona hlutir ganga yfir," segir Ingvar Erlingsson, forseti bæjarstjórnar Fjallabyggðar.

Lausamunir brotnuð, rúður sprungu, kirkjuklukkur slóu og flestir urðu óttaslegnir. Í meðfylgjandi myndskeiði má heyra börn lýsa reynslu sinni af skjálftanum.

Það er auðþekkt að beygur er í fólki gagnvart framhaldinu. Menn minnast Dalvíkurskjálftans 1934 þegar hús hrundu og Skagafjarðarskjálftans 1963 sem var um sjö stig.

„Stóru skjálftarnir koma frekar á því sem kallast Húsavíkur-Flateyjar-misgengið. Þar þurfum við virkilega að gæta að okkur því þar er þetta farið að nálgast byggð. Hins vegar sjáum við ekkert sem bendir til að það verði stórskjálfti þar ennþá," segir Ragnar Stefánsson, jarðfræðingur.


Tengdar fréttir

Rúmið titraði stanslaust

Margir Siglfirðingar voru óttaslegnir í nótt þegar jarðskjálftarnir gengu yfir. Þar á meðal Birna Kristín Eiríksdóttir.

Sá stærsti var 5,6 stig

Stærstu skjálftarnir í nótt voru 5,6 að stærð og 4,8 að stærð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Öflugasta skjálftahrina í tvo áratugi

Jarðskjálftahrinan sem hefur gengið yfir Norðurland síðasta hálfa sólarhringinn er sú öflugasta sem hefur orðið á svæðinu í um tvo áratugi. Jarðskjálftafræðingur segir mikilvægt að fylgjast með framvindu mála þar sem jarðhræringarnar geti haft áhrif á skjálftavirkni annarra svæða.

Hundruð jarðskjálfta mældust á Norðurlandi

Nokkur hundruð jarðskjálftar hafa mælst á Norðurlandi frá því í gærkvöldi. Sá stærsti, að stærðinni 5,2, varð um hálftvöleytið í nótt en sá fannst um allt Norðurland og víðar.

Allt nötrar og skelfur á Norðurlandi

Töluverði skjálftavirkni hefur verið á Norðurlandi í kvöld. Hafa skjálftarnir verið allt að fjögur stig. Þeir hafa meðal annars fundist á Akureyri og á Siglufirði hafa bækur munir hrunið úr hillum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×