Innlent

Dæmi um að geðfatlaður hafi tekið smálán upp á aðra milljón

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Skuldir vegna smálána sliga sífellt fleiri einstaklinga sem leggjast inn á Klepp. Dæmi eru um að sjúklingar hafi tekið skammtímalán upp á eina og hálfa milljónir króna. Margir eiga í erfiðleikum með að hætta að taka lánin segir félagsráðgjafi.

Anna Guðrún Halldórsdóttir félagsráðgjafi á Kleppi segir sjúklingana eiga það sameiginlegt að hafa lítið á milli handanna og vera á örorku eða félagsbótum. Þeir eigi jafnvel ekki kost á því að fá lán á sama hátt og aðrir, því nýti þeir sér skyndilánin sem í boði eru.

„Það er náttúrulega ótrúlega leiðinlegt að þetta sé eina leiðin fyrir þetta fólk til þess að fá auka ráðstöfunartekjur til að ná að lifa út mánuðinn," segir Anna Guðrún. „Ég hef séð dæmi um það að fólk er með smálán hjá jafnvel öllum 5 fyrirtækjunum og kannski 3 lán hjá hverju fyrirtæki og þá er skuldin kannski komin upp í að ganga 300 þúsund hjá hverju fyrirtæki fyrir sig."

Þegar svo er komið verður erfitt að semja um mánaðarlegar afborganir og hafa sjúklingarnir þá áhyggjur af því að smálánafyrirtækin geti farið inn á reikninga þeirra og sótt þann litla pening sem þar er fyrir.

„Þau eru í miklum kvíða og hafa miklar áhyggjur af því hvernig þau geta snúið sér í því að borga þetta niður og þá leita þeir til okkar," segir Anna Guðrún.

Þá eiga margir sjúklingar erfitt með að hætta að taka smálán.

„Af því að ég geri kröfu um það að fólk hætti að taka lánin til þess að það sé hægt að vinna úr þeirra vandamálum. Fólk hikar oft við það, af því að það sér þetta sem einu leiðina til þess að borga niður þau lán sem það hefur fyrir," segir Anna Guðrún og bætir við að það sé mikilvægt að herða reglur um starfsemi smálánafyrirtækjanna.

„Það þarf að gera harðari skilmála hjá lánafyrirtækjunum um það hverjir mega taka lánin og passa bara betur upp á þá einstaklingar í þjóðfélaginu sem minna mega sín," segir hún að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×