Erlent

Nöfn þeirra sem létust lesin upp

Frá mótmælum við Marikananámurnar.
Frá mótmælum við Marikananámurnar.
Rannsóknarnefnd, sem hefur það verkefni að kanna skotárásirnar í Marikana námunni í Suður-Afríku í ágúst síðastliðnum, tók til starfa í dag. Nefndin hóf störf sín á því að lesa upp nöfn þeirra sem létust.

Það var 16. ágúst síðastliðinn sem námuverkamenn í platínunámunni í Marikana kröfðust launahækkunar. Verkamennirnir voru vopnaðir sveðjum og öðrum eggvopnum, en Suður-Afríska lögreglan stóð hjá, grá fyrir járnum. Ekki ber öllum saman um það sem gerðist næst.

Þannig segist lögreglan hafa heyrt skothvell og hafið skotárás sem leiddi til dauða þrjátíu og fjögurra náumverkamanna. Sjálfir vilja námuverkamennirnir meina að lögreglan hefði hafið skothríð að ástæðulausu. Átökin héldu áfram í nokkrar vikur og hafa alls 44 látið lífið í launabaráttu verkamannanna.

Þegar nefndin tók til starfa í dag las hún upp nöfn þeirra sem hafa látist í átökunum. Lögmenn fjölskyldna hinna látnu báðu svo um frest sem orðið var við.

Til stendur að reisa tjald nærri námununum, sem eru um 100 kílómetra frá Jóhannesborg, svo aðstandendur og aðrir geti fylgst með vitnaleiðslum í málinu.

Enn er mikil ólga hjá námuverkamönnum víða um Suður-Afríku, en þeir sem störfuðu í námunni í Marikana, fengu 22 prósenta launahækkun á dögununum, sem er þó töluvert lægri hækkun en upphaflega var krafist.

Mannfallið er það mesta sem hefur orðið í Suður-Afríku síðan aðskilnaðarstefnunni lauk árið 1994.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×