Innlent

Líffæraþegar vilja áætlað samþykki um líffæragjafir

Fjórir líffæraþegar hvetja þingheim til að samþykkja þingsályktunartillögu um áætlað samþykki við líffæragjafir. Kona sem hefur gengist undir tvær nýrnaígræðslur segir mikilvægt að muna að fólk sé á bak við tölur um bæði líffæragjafir og þega.

Diljá, Jóhann, Kjartan og Sigríður eiga það sameiginlegt að vera líffæraþegar. Jóhann er með ný lungu, Kjartan hjarta, Diljá hefur tvisvar farið í nýrnaígræðslu og Sigríður Ásta fékk nýja lifur fyrir rúmu hálfu ári.

„Veikindin í tengslum við lifrina komu fyrir fimm árum, þegar ég var svona tvítug. Það varð smám saman verra og verra, ég varð orkulausari og miklir verkir. Svo endaði með því að það var ekkert annað í stöðunni en að fá nýja lifur," segir Sigríður Ásta Vigfúsdóttir.

Eftir að hafa beðið í níu mánuði fór Sigríður í lifraígræðslu og er heilsa hennar nú öll að koma til.

„Ég fékk reyndar smá höfnun núna í sumar en eftir kröftuga sterameðferð þá gekk það allt til baka. Ég var að byrja aftur í skólanum í haust og þetta er bara allt annað. Ég var orðin nánast rúmliggjandi, gat voða lítið gert og algerlega orkulaus þannig að þetta er bara allt annað," Sigríður Ásta Vigfúsdóttir.

Fjórmenningarnir ætla að deila reynslu sinni á opnu málþingi í menntaskólanum í Borgarnesi í kvöld klukkan hálf átta en þar verður þingsályktunartillaga um ætlað samþykki við líffæragjafir í brennidepli.

„Við viljum hvetja þingheim til að klára þetta mál, sem að því miður náði ekki í gegn á vorþingi en vonandi klárast það nú á haustþingi. Þetta eru bara tölur sem talað er um. Þetta er allt fólk sem er búið að ganga í gegnum ótrúlega hluti, á öllum aldri alveg frá núll ára upp í níutíu og eitthvað. Þannig að maður verður að hafa það í huga að það er fólk þarna á bak við sem þarf virkilega á þessu að halda. Þetta er það sem bjargar okkur, annars værum við ekki hérna í dag," segir Diljá Ólafsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×