Erlent

Fann eina milljón úti á götu - fékk 10 prósent í fundarlaun

Norðmaður sem fann eina milljón úti á götu í norska bænum Finnsnes segir að það hafi aldrei hvarflað að sér að taka peningana og hlaupa á brott.

Arnt Roger Myrvoll var á leið í vinnuna á dögunum þegar hann sá möppu sem staðsett var út í vegakanti. Hann stöðvaði bílinn og tók möppuna upp í bílinn til sín. Þegar hann opnaði möppuna reyndust vera 48 þúsund norskar krónur í henni, eða um eina milljón íslenskra króna. Það var ekkert nafn á möppunni, bara beinharðir peningar.

Í samtali við blaðið Nordlys segir Myrvoll að hann hafi byrjað að telja peningana en hafi gefist upp þegar hann var kominn upp í þrjátíu þúsund. Hann hélt því áfram för sinni og í hádegishléinu í vinnunni fór hann á lögreglustöðina með peningana.

Þegar þangað var komið tjáði lögreglumaður honum að starfsmaður í verslun í bænum hefði tapað möppunni og tilkynnt það til lögreglu. Forsvarsmenn fyrirtækisins voru svo ánægðir með heiðarleika Myrvoll að þeir ákváðu að borga honum 10 prósent af upphæðinni í fundarlaun.

Í samtali við blaðið segir Myrvoll að vissulega hefði hann getað tekið peningana og farið í frí erlendis. En það hafi aldrei komið upp í hugann því það hefði verið frí á fölskum forsendum. Hann segist vonast til þess að flestir í sömu stöðu myndu gera það sama.

Og þá er það spurningin, hvað myndir þú gera, ef þú myndir finna tíu milljónir úti á götu?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×