Erlent

Fundu áður óþekktan vírus sem líkist SARS

Áður óþekktur vírus, þó ekki ólíkur þeim sem kallaðist SARS og varð hundruð manna að bana árið 2003, hefur greinst í manni sem nú er verið að meðhöndla á bresku sjúkrahúsi.

Flogið var rakleiðis með manninn, sem er 49 ára, á spítala í Lundúnum frá Qatar þaðan sem maðurinn er frá. Hann er þó ekki fyrsti sem greinist því karlmaður frá Saudi Arabíu greindist fyrr í mánuðinum en er nú látinn vegna hans.

Sérfræðingar eru enn að reyna að átta sig á hversu alvarlegur vírusinn er og hvort auðveldlega sé hægt að lækna fólk sem greinist.

Þá hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ekki mælt með að fólk ferðist ekki til ákveðinna svæða í heiminum vegna vírusins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×