Erlent

Risastór borgarísjaki sprakk í loft upp

Risastór borgarísjaki sprakk í loft upp í Baffin flóanum við Grænland í síðustu viku.

Sprengingin náðist á myndvélar gervihnattar sem var yfir svæðinu og sérfræðingar við dönsku veðurstofuna eru nú að greina það sem sést á myndunum. Um var að ræða borgarísjaka sem var á stærð við 65 fótboltavelli eða 600 sinnum 700 metra að flatarmáli.

Nora Adamsen vísindamaður við veðurstofuna segir að um óvenjulegan atburð hafi verið að ræða en borgarísjakinn splundraðist í fjölda minni ísjaka sem síðan rak hratt í norður með straumum og vindi. Talið er að nokkrir samverkandi þættir hafi valdið því að borgarísjakinn sprakk, þar á meðal bráðnun, rof og innri spenna í jakanum.

Adamsen segir að menn hafi séð svona sprengingar á borgarísjökum tvisvar sinnum á síðasta ári en þetta sé í fyrsta sinn sem slík sprenging hafi náðst á myndavélar gervihnattar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×