Enski boltinn

Arsenal slátraði Southampton

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Arsenal fylgdi á eftir góðum útisigri á Liverpool í síðustu umferð með stórsigri á nýliðum Southampton. Lokatölurnar urðu 6-1 í leik þar sem gestirnir voru óvenju gjafmildir.

Heimamenn hófu leikinn með stórsókn sem bar árangur á 11. mínútu. Hollendingurinn Jos Hooiveld varð þá fyrir því óláni að stýra knettinum í netið af stuttu færi en forysta heimamanna var verðskulduð.

Fallegasta mark leiksins kom eftir rúmlega hálftíma leik. Þjóðverjinn Lukas Podolski skoraði þá með skoti beint úr aukaspyrnu sem Kelvin Davis réð ekki við. Annað mark Podolski í tveimur leikjum og gleðifréttir fyrir stuðningsmenn Arsenal hve fljótt hann hefur aðlagast lífinu í ensku úrvalsdeildinni.

Tvö mörk á þremur mínútum gerðu út um leikinn. Fyrst kláraði Gervinho gott færi af mikilli fagmennsku áður en Nathaniel Clyne skoraði annað sjálfsmark gestanna. 4-0 og aðeins 37. mínútur liðnar af leiknum.

Gestirnir löguðu stöðuna með marki Daniel Fox í viðbótartíma í fyrri hálfleik. Markið var um leið það fyrsta sem Arsenal fær á sig á þessari leiktíð.

Gervinho bætti við öðru marki sínu í síðari hálfleik þegar hann ýtti boltanum yfir línuna af stuttu færi. Undir lok leiksins skoraði Theo Walcott sjötta mark Arsenal eftir klaufagang í vörn Southampton. Walcott fagnaði þó ekki markinu gegn sínum gömlu félögum.

Stórsigur Arsenal staðreynd en liðið hefur átta stig og er enn taplaust.

Southampton, sem hefur heldur betur fengið erfiða andstæðinga í fyrstu leikjum liðsins í úrvalsdeildinni, er áfram á botni deildarinnar stigalaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×