Innlent

Unga fólkið fer

BBI skrifar
Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Mynd/Hilmar
Bæjarstjórinn á Ísafirði telur að tölur Hagstofunnar um fækkun kjarnafjölskyldna í Ísafjarðarbæ haldist í hendur við fólksfækkun á svæðinu. Hann segir að það sé aðallega ungt fólk sem tekur sig upp og fer en eftir sitji bæjarfélag með sífellt eldri fólkssamsetningu.

Tölur Hagstofunnar benda til þess að á síðasta ári hafi kjarnafjölskyldum í bænum fækkað um 34 fjölskyldur. Það er töluvert meiri fækkun en síðustu ár. Tölurnar eru frá því í febrúar og því er þróun þessa árs ekki tekin með í reikninginn.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðar, telur að fækkunin hafi ekki verið jafnör í ár og í fyrra. „En mín tilfinning er engu að síður sú að við höfum verið að missa töluvert af ungum fjölskyldum núna í haust. Það er ljóst að þetta er þróun sem er viðvarandi," segir hann og bendir á að búferlaflutningar fari oft fram á haustin.

Götumynd frá Ísafirði.Mynd/Rósa
Hann segir að fólki hafi stöðugt fækkað síðustu ár og þá helst ungu fólki. „Aldurstréð er alltaf að breytast. Við sjáum bara grunnskólann. Þar hefur á átta eða tíu árum fækkað úr um 520 börnum niður í um 400," segir hann.

Hann bendir á að þróunin sé ekki einskorðuð við Ísafjarðarbæ heldur sé sömu sögu að segja af flestum sveitarfélögum í nágrenninu.

„Ég held samt að þetta sé alveg þróun sem hægt er að snúa við með markvissu starfi," segir Daníel og bendir meðal annars á að fjárhagsstaða bæjarins hefur batnað á síðustu árum.


Tengdar fréttir

Kjarnafjölskyldum á Ísafirði fækkar gríðarlega

Kjarnafjölskyldum í Ísafjarðarbæ fækkaði ört á síðasta ári. Þann 1. janúar voru 34 færri kjarnafjölskyldur í bænum en fyrir einu ári, en kjarnafjölskyldur eru hjón, fólk í óvígðri sambúð eða einhleypir einstaklingar sem búa með börnum 17 ára og yngri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×