Innlent

Kjarnafjölskyldum á Ísafirði fækkar gríðarlega

BBI skrifar
Fjölskylda.
Fjölskylda. Mynd/Getty
Kjarnafjölskyldum í Ísafjarðarbæ fækkaði ört á síðasta ári. Þann 1. janúar voru 34 færri kjarnafjölskyldur í bænum en fyrir einu ári eftir því sem fram kemur á bb.is. Kjarnafjölskyldur eru hjón, fólk í óvígðri sambúð eða einhleypir einstaklingar sem búa með börnum 17 ára og yngri.

Frá árinu 2000 til 1. janúar 2012 hefur kjarnafjölskyldum í Ísafjarðarbæ fækkað um 102 fjölskyldur samkvæmt tölum Hagstofunnar frá því í febrúar. Það gerir 8,5 fjölskyldur á ári að meðaltali. Fækkunin virðist hins vegar hafa tekið rækilegan kipp síðasta árið en þá nam fækkunin 34 fjölskyldum. Það er 400% meira en meðaltal síðustu tólf ára.

Samkvæmt upplýsingum frá Ísafjarðarbæ fækkaði um 8 börn í grunnskóla bæjarins í ár. Fækkunin var minni en búist var við þar sem fleiri börn fluttu til bæjarins en gert var ráð fyrir. Engu að síður útskrifuðust fleiri börn úr skólanum svo börnum fækkaði á heildina litið.

Þó kjarnafjölskyldum fækki þýðir það ekki endilega að fólki fækki jöfnum höndum. Þegar börn komast yfir 17 ára aldurinn hætta t.d. fjölskyldur að teljast kjarnafjölskyldur. Því hefur fólksfækkun á Ísafirði ekki endilega tekið kipp um 400% á síðasta ári líkt og fækkun kjarnafjölskyldna. Bæjarstjóri telur engu að síður að ofangreindar tölur séu í takt við fólksfækkun síðustu ára.

Árið 2000 voru kjarnafjölskyldurnar 1.035 í Ísafjarðarbæ. Í ársbyrjun 2012 voru þær orðnar 933. Ári fyrr höfðu þær verið 967.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×