Margt bendir til þess að falsanir, ritstuldur og margs konar svindl sé algengt í vísindalegum rannsóknum í dag. Fjallað er um málið hjá breska fréttamiðlinum The Guardian.
Vísindamenn eiga í sífelldri samkeppni sín á milli um rannsóknarstyrki frá yfirvöldum. Samkeppnin vex stöðugt og því er freistandi fyrir vísindamenn að eiga við niðurstöður rannsóknanna eða sleppa því að minnast á óþægilegar staðreyndir til að komast að hjá stórum vísindablöðum.
Í víðtækri könnun sem gerð var árið 2009 voru vísindamenn spurðir hvort þeir eða kollegar þeirra hefðu falsað niðurstöður rannsókna. 1,97% vísindamanna viðurkenndi beinlínis að hafa falsað rannsóknir en 33,7% viðurkenndu að hafa ekki gætt faglegra vinnubragða. Hlutföllin ruku hins vegar upp þegar vísindamenn voru spurðir út í kollega sína. 14,12% þóttust vissir um að vinnufélagar þeirra hefðu vísvitandi falsað niðurstöður rannsókna. 72% töldu að samverkamennirnir gættu ekki faglegra vinnubragða.
Sjónir manna beinast ekki síst að sálfræðigeiranum en þar þykir óvenju auðvelt að miða rannsóknir við of lítil úrtök eða stunda ófagleg vinnubrögð. Vísindamenn sem byggja vísvitandi aðeins á hluta rannsókna sinna til að tryggja jákvæðar niðurstöður eru sérstakt vandamál. Í umfjöllum The Guardian er tekið dæmi:
Gefum okkur kenninguna að fólk sé tilbúið að greiða meira fyrir hljóðfæri eftir að það hlustar á Mozart. Hópur fólks er spurður hve mikið það myndi borga fyrir píanó, flautu eða fiðlu eftir að hluti fólksins hefur hlustað á Mozart. Ef allt bendir til þess að fiðlur séu eina hljóðfærið sem fólk er tilbúið að borga meira fyrir eftir að hafa hlustað á Mozart freistast ákveðnir vísindamenn til að sleppa því einfaldlega að minnast á hin hljóðfærin og birta bara rannsókn miðaða við fiðlurnar. Sú rannsókn gefur skakka mynd af raunveruleikanum, en niðurstöðurnar eru vissulega bragðmeiri og líklegri til að vekja athygli.

