Fótbolti

Katrín Ómars: Við ætlum á EM og það er sama hverjum við mætum í umspilinu

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
Íslenska kvennalandsliðinu tókst ekki að tryggja sér sigur í sínum riðli í undankeppni EM í kvöld og þarf að fara í gegnum umspilið eftir 1-2 tap á móti Noregi í Osló í kvöld. Lokamínútur fyrri hálfleiks voru íslenska liðinu dýrkeyptar því á þeim skoruðu þær norsku bæði mörkin sín.

„Þetta sýnir bara hvernig fótboltinn er. Ef þú missir einbeitingu í þrjár mínútur þá getur svona gerst. Við náðum síðan ekki að skora tvö mörk til að bæta fyrir það," sagði Katrín Ómarsdóttir, besti leikmaður íslenska liðsins á Ullevaal leikvanginum í kvöld.

„Við spiluðum mjög flottan seinni hálfleik og verðum að taka það með okkur út úr leiknum. Við höfum ekki spilað áður svona vel saman sem lið. Við tökum þetta með okkur og vonandi getum við líka spilað svona vel í næsta leik," sagði Katrín.

„Oftast hefur þetta ekki gengið hjá okkur þegar lið hafa leyft okkur að halda boltanum. Það gekk upp og það var mikil löngun í liðinu í að jafna. Það sást alveg á öllum hvað var mikill vilji í öllum að ná öðru markinu en það bara gekk ekki upp hjá okkur," sagði Katrín. Hún átti mjög sniðuga stoðsendingu á Margréti Láru í marki íslenska liðsins í seinni hálfleik.

„Já hún var flott. Þetta var frábært mark og það kveikti í okkur. Við þurftum á þessu marki að halda og það hélt leiknum gangandi fyrir okkur. En þetta gekk ekki," sagði Katrín og framundan eru tveir leikir í umspili um laust sæti á EM í Svíþjóð.

„Við ætlum á EM og það er sama hverjum við mætum í umspilinu. Við ætlum okkur að komast inn á EM og bæta fyrir síðasta mót þegar við gerðum ekki vel. Við ætlum að komast þangað aftur og gera betur. Það eru mikil þroskamerki á liðinu. Við vorum að spila vel og seinni hálfleikurinn var mjög góður," sagði Katrín að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×