Íslenski boltinn

Gríðarháar sjónvarpstekjur

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Geir formaður getur leyft sér að brosa.
Geir formaður getur leyft sér að brosa. fréttablaðið/vilhelm
Ársþing Knattspyrnusambands Íslands fer fram um næstu helgi og þar verður ársreikningur KSÍ lagður fram til samþykktar. Samkvæmt fjárhagsáætlun KSÍ fyrir rekstrarárið 2012 er gert ráð fyrir 777 milljónum í rekstrartekjur og rekstrargjöldum upp á rétt tæplega 714 milljónir króna.

Sjónvarpstekjur KSÍ nema um 237 milljónum kr. á árinu 2012 en það er fyrirtækið Sportfive sem er með einkarétt á sölu sjónvarpsréttar og tiltekins markaðsréttar KSÍ til ársins 2015. KSÍ gerir ráð fyrir að fá um 450 milljónir kr. í styrki á árinu 2012; koma um 315 milljónir kr. frá UEFA og 55 milljónir kr. frá FIFA.

Handbært fé KSÍ um síðustu áramót var 338 milljónir króna og eignir alls 813 milljónir króna. Eigið fé KSÍ var um 228 milljónir króna í árslok 2011.

Rekstrarkostnaður landsliða KSÍ verður um 302 milljónir kr. á þessu ári samkvæmt áætlun. Rekstrarkostnaður A-landsliðs karla hækkar um 25 milljónir kr., úr 92 milljónum í 117 milljónir kr. Til samanburðar er gert ráð fyrir um 60 milljónum kr. í rekstrarkostnað A-landsliðs kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×