Lífið

Fékk að upplifa drauminn

Íris Telma stóð sig vel í Kína fyrir Íslands hönd.
Íris Telma stóð sig vel í Kína fyrir Íslands hönd.
Fegurðardrottningin Íris Telma Jónsdóttir var fulltrúi Íslands í Miss World þetta árið en hún er nýlent á Íslandi eftir fimm vikna dvöl í Kína en það var einmitt kínverska stúlkan sem kosin var sú fegursta. Lífið náði tali af Írisi og forvitnaðist um lífsreynsluna síðustu vikurnar.

Prófíll:

Íris Telma Jónsdóttir

Aldur? 21 árs

Hjúskaparstaða? Einhleyp

Starf/Nám? Snyrtifræðingur á snyrtistofunni Carita Snyrting í Hafnarfirði

Áhugamál? Ég hef mikinn áhuga á íþróttum, ferðast bæði innanlands og utan, útilegum og þess háttar, öllu sem kemur snyrtifræðinni við og svo að sjálfsögðu bara að vera í góðra vina hópi og njóta lífsins.

Hvernig byrjaði þetta ævintýri þitt sem endaði með þátttöku í Miss World?

Ég fékk boð um að koma í prufu fyrir Ungfrú Reykjavík árið 2010 en mér fannst ég alls ekki rétta týpan í það á þeim tíma. Ég upplifði mig ekki eins og þessar stelpur sem voru að taka þátt í þessum keppnum og var líka hrikalega feimin. En eftir gott spjall við múttu og eftir að Ungfrú Ísland kjóllinn hennar mömmu frá árinu 1987 stóð til boða þá ákvað ég að slá til, sem betur fer! Ég tók þátt í Ungfrú Reykjavík og Ungfrú Ísland sama ár og lenti þar í 2. sæti. Ég kom held ég sjálfri mér og nánustu vinum mest á óvart þar sem feimnin var nánast horfin og ég orðin smá dama. Ég lærði svo mikið á þessu og átti þarna tíma sem standa algjörlega upp úr – án efa það skemmtilegasta sem ég hef gert. Svo opnaðist þetta tækifæri að fá að taka þátt í Miss World núna í ágúst, og því gat ég ekki hafnað enda gamall draumur sem varð að veruleika.

Hvað stóð undirbúningurinn lengi yfir áður en þú hélst út?

Ég fékk að vita frekar seint að ég yrði send út og fékk því aðeins tvær vikur til þess að undirbúa mig. Ég fékk strax frí frá vinnu og það gerðist því heilmikið á þessum ­tveimur vikum.

Hvað fórstu með mikinn farangur?

Ég tók með mér þrjár ­stórar ferðatöskur, samtals hafa þetta verið um 80 kíló.

Hvernig gekk þetta langa ferðalag með allan þennan farangur fyrir sig? Ferðalagið gekk mjög vel en það tók tuttugu og níu klukkustundir að komast til Ordos. Það var reyndar hægara sagt en gert að fara í þrjú flug með farangurinn en það heppnaðist þrátt fyrir himinháa sekt fyrir yfirvigt í ­Peking. Töskurnar skiluðu sér allar en það voru ekki allir keppendurnir svo heppnir að fá farangurinn sinn strax.

Hvað varstu lengi úti?

Þetta voru um fimm vikur. Mun lengri tími heldur en í fyrra til dæmis, þá stóð þetta aðeins í þrjár vikur. Við ferðuðumst um Kína fyrstu tvær ­vikurnar áður en stífar æfingar ­hófust. Ég var líka rosalega ­heppin að fá foreldra mína út til mín síðustu vikuna. Þegar stelpurnar voru komnar með massíva heimþrá var ég bara með gömlu á sama hóteli og er rosalega þakklát fyrir það að þau hafi ferðast alla þessa leið til að taka þátt í þessu með mér.

Var þétt dagskrá allan tímann?

Já, þetta var sko full vinna í fimm vikur án helgarfría. Oft á tíðum náði ég mest þriggja klukkustunda svefni og þegar mest var svaf ég í sex tíma þarna úti þar sem ­dagurinn var byrjaður um ­klukkan sex á morgnana og við ekki að detta inn á hótel fyrr en seint. Þetta var gífurlega skemmtilegt og þvílík lífsreynsla en einnig rosalega ­erfiðar fimm vikur og ég á eflaust eftir að taka góðar tvær vikur í að sofa núna þegar ég er komin heim.

Hvernig var öryggisgæslan í kringum hópinn?

Það var rosalega góð gæsla, sem þurfti sko alveg. Gott security-teymi og svo einn „chaperone" yfir hverjum sex ­stelpum sem pössuðu vel upp á okkur. Kínverjarnir voru hrikalega spenntir fyrir þessu og það beið okkar góður hópur af Kínverjum hvert sem við fórum.

Hvað stendur upp úr eftir ferðina? Lokakvöldið að sjálfsögðu, þá var ég með gæsahúð allan ­tímann. Draumur sem varð að veruleika, eftir að hafa horft á keppnina síðan ég var lítil og allt í einu var ég þarna og fékk að upplifa þetta allt.

En fyrir utan það standa tvær ferðir upp úr, ferðalag til Shanghai þar sem við eyddum góðu kvöldi í „river cruise" innan um öll ­ljósin og háu byggingarnar, það var eitt það flottasta sem ég hef séð og svo eyddum við heilum degi í eyðimörk þar sem ég fór til dæmis á bak á kameldýri, það var ótrúlega gaman.

Kynntistu mörgum stelpum í keppninni? Já, það var metþátttaka þetta árið en við vorum 117 ­stelpur. Ég kynntist þeim að sjálfsögðu misvel en náði að kynnast rosalega mörgum ansi vel. Þetta er hópaskipt og var okkur skipt í fjóra hópa, maður kynntist hópnum sínum rosa vel en annars vorum við duglegar að blanda geði utan ­hópsins og ég er gífurlega heppin að hafa náð að kynnast svona mörgum stelpum á þetta stuttum tíma.

Ég kynntist að sjálfsögðu herbergisfélaganum best, hún var Miss England, en Miss Wales var líka alltaf með okkur en hún ­endaði í 2. sæti.

Skynjaði hópurinn hver myndi vinna eða hvernig upplifðir þú það? Já, við skynjuðum hver yrði sigurvegari ansi fljótt þó það hafi komið tímar sem maður fór að efast um röðunina. Ég var samt rosalega ánægð sérstaklega að sjá yndislegu Sophie mína, Miss Wales, í öðru sæti en einnig Miss China í fyrsta sætinu, hún er þessi hógværa stelpa sem var yndisleg við alla, alltaf brosandi og bara yndisleg í alla staði!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.