Enski boltinn

Tottenham búið að bjóða í Yann M'Vila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yann M'Vila.
Yann M'Vila. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tottenham seldi í morgun Króatann Luka Modric til spænska liðsins Real Madrid og Spurs-menn voru ekki lengi að bjóða í annan miðjumann. Tottenham ætlar að reyna að kaupa Yann M'Vila frá Rennes samkvæmt frétt á BBC Sport.

Yann M'Vila er 22 ára franskur landsliðsmiðjumaður sem var orðaður við Arsenal í sumar en ekkert varð þó að því að Arsene Wenger keypti hann.

Tottenham bauð 12,7 milljónir punda í Yann M'Vila auk ýmissa bónusa en franska félagið vill fá 15 milljónir fyrir hann. Rennes svaraði tilboðinu með því að leggja til formlegar viðræður.

M'Vila er þegar búinn að hafna því að fara til Zenit St Petersburg og Shakhtar Donetsk en hann hefur augastað á ensku úrvalsdeildinni.

M'Vila er fæddur árið 1990 og hefur spilað 110 leiki með Rennes frá 2009. M'Vila hefur unnið sér sæti í franska landsliðinu og á að bak 22 landsleiki.

Komi M'Vila til Tottenham má búast við því að Hollendingurinn Rafael van der Vaart yfirgefi félagið en Van der Vaart hefur verið í mikilli samkeppni um sæti í byrjunarliðinu við Gylfa Þór Sigurðsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×