Innlent

Strandveiðarnar klárast á svæði eitt á miðnætti

Alls fá 96 bátar einn aukadag í ágúst vegna misskilnings í síðasta mánuði.
Alls fá 96 bátar einn aukadag í ágúst vegna misskilnings í síðasta mánuði. Mynd/Stefán Karlsson
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur bannað strandveiðar í ágúst, frá og miðnætti á svæði eitt, eða frá Snæfellsnesi inn í Ísafjarðardjúp, vegna of mikillar veiði á fyrri tímabilunum í sumar.

Bátarnir fá því aðeins tvo veiðidaga á þessu svæði í mánuðinum. Lang flestir strandveiðibátar hafa veiðiheimildir á þessu svæði og hefur mánaðakvótinn jafnan klárast, og gott betur, á svæðinu eftir aðeins nokkurra daga veiði í hverjum mánuði.

Umframveiðin á fyrri þremur tímabilunum dregst nú frá kvótanum á þessu fjórða og síðasta strandveiðitímabili sumarsins og er ágústkvótinn á svæðinu því aðeins um 430 tonn. Bátarnir veiddu um 160 tonn i gær og veiða að líkindum annað eins í dag, eða samtals 320 tonn.

Þá eru eftir 110 tonn handa þeim bátum sem eiga inni einn róðradag, sem þeir tóku ekki fyrr í sumar, vegna misskilnings á reglugerð. Þann dag mega þeir taka hvenær sem er í mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×