Sport

Makhloufi fékk að keppa og vann til gullverðlauna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Taoufik Makhloufi.
Taoufik Makhloufi. Nordicphotos/Getty
Alsíringurinn Taoufik Makhloufi sigraði í 1500 metra hlaupi karla í frjálsíþróttakeppni Ólympíuleikanna í kvöld.

Makhloufi kom í mark á 3:34.08 mínútum en hann virtist í sérflokki í hlaupinu í kvöld. Þegar 300 metrar lifðu af hlaupinu setti hann í fluggír sem enginn átti svar við og vann öruggan sigur.

Óvíst var hvort Makhloufi fengi að keppa í hlaupinu þar sem honum var vísað úr keppni á leikunum fyrir óíþróttamannslega framkomu í undanrásum í 800 metra hlaupi karla. Þá hætti hann keppni eftir um 200 metra hlaup þar sem hann ætlaði að spara sig fyrir 1500 metra hlaupið.

Ólympíhópur Alsír kvartaði sáran og sagði sinn mann glíma við hnémeiðsli sem hefðu orðið til þess að Makhloufi varð að hætta keppni. Alþjóðafrjálsíþróttasambandið samþykkti málsstað Alsír og veitti honum rétt til þátttöku á nýjan leik.

Leonel Manzano frá Bandaríkjunum tryggði sér annað sætið á tímanum 3:34.79 mínútum og Marokkómaðurinn Abdalaati Iguider varð þriðji á 3:35.13 mínútum.

Minnstu munaði að Iguider yrði af bronsverðlaununum því Bandaríkjamaðurinn Matthew Centrowitz átti magnaðan endasprett. Centrowitz kom þó í mark 4/100 á eftir Iguider.

Fimmti varð Norðmaðurinn og Evrópumeistarinn Henrik Ingebritsen á tímanum 3:35.43 sem er norskt met.

Athygli vakti að Ólympíumeistarinn, Asbel Kiprop frá Kenía, hafnaði í tólfta og síðasta sæti á 3:43.83. Þá varð silfurverðlaunahafinn frá því í Peking, Nicholas Willis frá Nýja-Sjálandi, að sætta sig við 9. sætið.


Tengdar fréttir

Sendur heim fyrir að reyna ekki á sig

Taoufik Makhloufi, frjálsíþróttakappi frá Alsír, hefur verið sendur heim af Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu fyrir að reyna ekki á sig í undanrásum 800 metra hlaupsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×