Innlent

Kröfum um ógildingu forsetakosninganna hafnað

JHH og BBI skrifar
Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins, var einn þeirra sem kærði.
Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins, var einn þeirra sem kærði.
Hæstiréttur hefur annars vegar synjað kröfu þriggja öryrkja og hins vegar kröfu Ástþórs Magnússonar um ógildingu forsetakosninganna. Þetta kemur fram í tveimur ákvörðunum Hæstaréttar sem fjölmiðlar fengu sendar fyrir stundu.

Kæra öryrkjanna

Þrír einstaklingar kærðu kosningarnar að því tilefni að kjósendum, sem ekki var fært að kjósa með eigin hendi, hafi ekki verið heimilað að njóta liðsinnis aðstoðarmanns að eigin vali heldur gert að fá aðstoð kjörstjórnar.

Í ákvörðun Hæstaréttar segir að reglan um leynilegar kosningar sé hugsuð til að vernda kjósendur frá áhrifum sem annað fólk getur haft á hvernig atkvæðum er varið, ekki síst frá þeim sem þekkja kjósandann.

Til þess að fatlaðir eða blindir kjósendur verði ekki útilokaðir frá því að kjósa þurfi að víkja frá skilyrðum um leynilegar kosningar að einhverju leyti. Svo að það frávik verð ekki meira en nauðsyn ber til verði þeir að fá aðstoð manns sem bundinn er þagnarskyldu.

Þá kemur annað hvort til greina að fela manni sem situr í kjörstjórn eða manni sem fylgir kjósanda á kjörstað að aðstoða kjósandann. Báðar leiðirnar eru færar en löggjafinn hefur valið að fela hlutverkið manni úr kjörstjórn, þar með er tryggt eins vel og unnt er að vilji kjósanda sé virtur. Þó að löggjafinn hefði getað leyft aðila sem kjósandi velur að sjá um hlutverkið þýðir það ekki að hin skipunin sé andstæð 5. gr. stjórnarskrárinnar um að forsetakosningarnar skuli vera leynilegar, en á því byggði kæra þrímenninganna. Kosningalögin voru því ekki andstæð stjórnarskrá.

Eftir að Hæstiréttur kemst að þessari niðurstöðu tekur hann undir að ágalli hafi verið á forsetakosningunum þar sem Freyja Haraldsdóttir fékk að kjósa með aðstoð annarra en kjörstjórnarmanna og Ásdís Jenna Ástráðsdóttir, kærandi, sömuleiðis. Það var ekki heimilt samkvæmt gildandi lögum. Hins vegar bendir Hæstiréttur á 3. mgr. 120. gr. laga um kosningar til Alþingis þar sem segir að kosningar skuli aðeins ógilda ef gallar á þeim hafa haft áhrif á kosningaúrslit. Reglan á einnig við um forsetakosningarnar. Með vísan til hennar þóttu ekki efni til að ógilda forsetakosningarnar.

Fram kemur að 173 fatlaðir kjósendur á landinu öllu greiddu atkvæði með aðstoð kjörstjórnarmanns, þar af mótmæltu tveir þeirri tilhögun. Einn kjósandi fékk hins vegar að velja sér aðstoðarmann í kjörklefann, þar var Freyja Haraldsdóttir, Ásdís Jenna Ástráðsdóttir fékk að kjósa með hjálp aðstoðarmanns síns og einn kjósandi yfirgaf kjörstað án þess að kjósa þar sem hún fékk ekki að velja sinn aðstoðarmann.

Kæra Ástþórs

Ástþór kærði kosningarnar vegna þess að yfirstjórn Norðvesturkjördæmis afturkallaði vottorð á meðmælendalista Ástþórs eftir að í ljós kom að flestir á þeim lista könnuðust ekki við að hafa ritað nafn sitt á hann.

Hæstiréttur bendir á að á listanum úr Vestfirðingafjórðungi hafi verið 77 meðmælendur. Þegar yfirkjörstjórn hringdi í meðmælendur til að sannreyna gildi listans könnuðust 53 þeirra ekki við að hafa ritað nafn sitt á hann. Aðeins 11 könnuðust við það. Ekki náðist í 13 meðmælendur.

Samkvæmt lögum þurfa frambjóðendur að leggja fram meðmælendalista með ákveðnum fjölda meðmælenda til að framboð þeirra teljist gilt. Ekki var umdeilt að fjöldi meðmælenda á umræddum lista Ástþórs var ekki nægjanlegur. Því var innanríkisráðuneytinu rétt að hafna framboði Ástþórs.

Ástþór byggði kæru sína að einhverju leyti á því að yfirkjörstjórn hafi farið út fyrir verksvið sitt með því að hringja í meðmælendur á lista hans. Hæstiréttur segir að kjörstjórn geti ekki látið við það sitja að athuga hvort meðmælendurnir séu á kjörskrá. Ef tilefni gefst til að efast um að meðmælendurnir hafi sjálfir ritað á listann verður kjörstjórn að sannreyna það. Því fór kjörstjórnin ekki út fyrir hlutverk sitt.

Allir tólf hæstaréttardómararnir sem eru starfandi við Hæstarétt Íslands standa að ákvörðununum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×