Fótbolti

Iniesta gefur lítið fyrir ummæli Mourinho

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Andres Iniesta, besti leikmaður EM í knattspyrnu, gaf lítið fyrir ummæli sem voru látin fall eftir jafntefli Spánar og Ítalíu í fyrstu umferð riðlakeppninnar.

Liðin skildu þá jöfn, 1-1, en Spánverjar höfðu svo betur gegn Ítölum í úrslitaleik keppninnar, 4-0.

„Sumir nýttu sér tækifærið og létu ýmis ummæli falla eftir jafnteflið gegn Ítalíu. Það væri tímasóun að svara þeim ummælum," sagði Iniesta en Mourinho gagnrýndi leikskipulag spænska landsliðsins og að liðið væri getulaust án framherja.

„Við unnum mótið með þessum leikmönnum og þessu leikkerfi. Það má ekki gleyma því," sagði Iniesta sem var valinn besti leikmaður mótsins að því loknu.

„Það var mikill heiður fyrir mig," sagði hann. „Það er frábært að vita til þess að vinna mín á vellinum sé svo mikils metin. Ekki er verra að við urðum meistarar en ég hafði góða tilfinningu fyrir mótinu. Ég leiddi þó hugann aldrei að því hvort ég yrði valinn bestur eða ekki."

Hann hefur ekki velt því fyrir sér hvort hann verði valinn knattspyrnumaður ársins að árinu loknu. „Það eina sem ég einbeiti mér að er að spila vel fyrir liðið og áhorfendur. Ég myndi gefa Messi verðlaunin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×