Innlent

Hestamennirnir komnir í Hrútafjörð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hestamennirnir Magnús Pétursson, Sigurður Sævar Sigurðsson, Ólafur Finnbogason og Pétur Óli Pétursson.
Hestamennirnir Magnús Pétursson, Sigurður Sævar Sigurðsson, Ólafur Finnbogason og Pétur Óli Pétursson. Mynd/Hildur Eiríksdóttir
Hestamennirnir fjórir, sem fyrir viku lögðu upp í leiðangur milli Látrabjargs og Gerpis, vestasta og austasta odda Íslands, eru væntanlegir í Hrútafjörð í kvöld. Þar með hafa þeir riðið bæði um Vestfirði og Vesturland en í dag fara þeir úr Dalasýslu yfir í Strandasýslu.

Fjórmenningarnir, þeir Magnús Pétursson, Pétur Óli Pétursson, Ólafur Finnbogason og Sigurður Sævar Sigurðsson, hafa sextán hesta til reiðar. Í morgun lögðu þeir upp frá Ljárskógaseli norðan Búðardals, þaðan lá leiðin yfir í Laxárdal og um Sölvamannagötur og loks að Fjarðarhorni í Hrútafirði.

Ferðin hófst þann 30. júní og var fyrsta dagleiðin frá Bjargtöngum yfir á Rauðasand. Þeir hafa síðan riðið um Barðastrandarsýslur og Dalasýslu, fóru meðal annars Þingmannaheiði og um Reiphólsfjöll yfir á gömlu Þorskafjarðarleiðina og niður Þorgeirsdal. Þeir riðu því næst yfir Þorskafjörð á fjöru. Í gær fóru þeir úr Saurbæ um Sælingsdalsheiði og hefur allt gengið vel til þessa, að sögn Magnúsar.

Þeir áforma að hvílast á morgun, sunnudag, en síðan liggur leiðin yfir á Norðurland og í Húnavatnssýslur, um Miðfjörð, Víðidal, Vatnsdalshóla, Húnavelli, Svínavatn og að Auðkúlurétt. Síðasta dagleiðin þann 11. júlí liggur yfir brúna yfir Blöndu við Löngumýri og að Húnaveri, yfir Vatnsskarð niður í Skagafjörð og loks að Vindheimum.

Leiðinni þvert yfir Ísland skipta þeir í tvo áfanga. Sá fyrri er frá Látrabjargi að Vindheimum í Skagafirði. Síðari áfangann, úr Skagafirði til Austfjarða, hyggjast þeir geyma til næsta sumars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×