Franski framherjinn Louis Saha er í leit að nýju félagi en hann varð samningslaus í sumar. Hann hefur lýst yfir áhuga á að fara til Sunderland.
Martin O'Neill, stjóri Sunderland, er sagður vera spenntur fyrir Frakkanum enda sér hann fram á að missa Nicklas Bendtner aftur til Arsenal.
Hinn 33 ára gamli Saha var síðast á mála hjá Tottenham og var mikið gagnrýndur í lok tímabils er hann óskaði Chelsea til hamingju með sigurinn í Meistaradeildinni á Twitter.
Sigur Chelsea þýddi nefnilega að Spurs komst ekki í Meistaradeildina. Saha var því ekki að skora hjá stuðningsmönnunum þar.
