Enski boltinn

Arsenal staðfestir komu Olivier Giroud

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olivier Giroud í leik með Frökkum á EM.
Olivier Giroud í leik með Frökkum á EM. Mynd/AFP
Olivier Giroud er orðinn leikmaður Arsenal en enska félagið tilkynnti þetta á heimasíðu sinni í morgun þar sem sjá mátti mynd af Frakkanum með Arsenal-búninginn.

Olivier Giroud fór í gegnum læknisskoðun í gær og gekk í kjölfarið frá langtíma samning en lengd hans er ekki gefin upp á heimasíðu Arsenal.

Giroud er 25 ára gamall og skoraði 21 mark í 36 leikjum í frönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð þar sem að hann hjálpaði Montpellier að vinna titilinn.

Giroud var með franska landsliðinu á EM en flaug strax til London eftir að Frakkarnir duttu úr keppni.

„Við erum ánægðir með að hafa samið við Olivier Giroud. Hann er líkamlega sterkur, vinnusamur og frábær í loftinu. Við erum spenntir fyrir komu hans og vitum að hann mun bæta við annarri vídd í sóknarleik okkar á næsta tímabili," sagði Arsène Wenger, stjóri Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×