Enski boltinn

Manchester United á útivelli eftir 5 af 6 Meistaradeildarleiki sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, er örugglega ekki alltof sáttur við leikjadagskránna í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð einkum þar sem að United þarf að spila útileiki eftir fimm af sex leikjum sínum í Meistaradeildinni. Manchester City liðið er hinsvegar í mun betri málum hvað þetta varðar.

Það er ekki nóg með að United þarf að spila á útivelli í fimm af þessum skiptum því andstæðingarnir eru ekki af lakari gerðinni. Liði heimsækir nefnilega Liverpool, Newcastle United, Chelsea, Aston Villa og loks Manchester City helgina eftir leiki sína í Meistaradeildinni.

Manchester City þarf aðeins að spila einn útileik eftir Meistaradeildarviku og sömu sögu er að segja af Evrópumeisturum Chelsea. Arsenal spilar hinsvegar þrjá heimaleiki og þrjá útileiki eftir Meistaradeildarleiki sína en útileikirnir eru á móti Manchester City, West Ham United og Aston Villa.

Ferguson getur kannski ekki kvartað alltof mikið yfir þessu því staðan var allt önnur í fyrra þegar United átti heimaleiki eftir alla sex Meistaradeildarleiki sína en City-liðið beið hinsvegar útileikur í öll sex skiptin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×