Fótbolti

Þjálfari Ítala: Ætlar ekki mótmæla því ef Ítalir draga lið sitt út úr EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesare Prandelli, þjálfari Ítala.
Cesare Prandelli, þjálfari Ítala. Mynd/Nordic Photos/Getty
Cesare Prandelli, þjálfari Ítala, mun ekki gera neinar athugasemdir við það ef ítalska knattspyrnusambandið ákveður að draga lið sitt út úr keppni á EM vegna nýjustu ásakanna um hagræðingu úrslita í ítalska fótboltanum.

Ítalska lögreglan handtók 19 manns í nýjasta áhlaupi sínu en sakamál tengd hagræðingu úrslita hafa ítrekað komið fram í sviðsljósið á Ítalíu undanfarin ár. Mario Monti, forsætisráðherra Ítala, gekk svo langt þegar hann heyrði af þessu nýjasta máli að hann taldi það réttast að leggja niður ítölsku deildina í einhvern tíma.

„Ef menn myndu segja við mig að það væri það besta fyrir ítalskan fótbolta að draga liðið úr keppni þá væri það ekki vandamál mín vegna. Það eru til mikilvægari hlutir en þessi keppni," sagði Cesare Prandelli í sjónvarpsviðtali á Ítalíu.

„Ég þoli ekki krossferðir. Ég vil meta hlutina hverju sinni og tek ekki ákvarðanir án þess að vita hverjar afleiðingarnar verða. Ég vildi helst bara ræða fótbolta en þessir atburðir koma víst í veg fyrir það," sagði Prandelli.

Málið hefur þegar haft sínar afleiðingar fyrir ítalska landsliðið. Domenico Criscito, sem var yfirheyrður í tengslum við málið, missti  í kjölfarið sæti sitt í EM-hóp Ítala.

„Ég er bæði reiður og leiður því ég ætti ekki að vera blóraböggull fyrir eitthvað sem ég átti engan þátt í. Ég er í sjokki yfir því að vera hent út úr liðinu og að ég sé orðinn ímynd þessa hneykslis," sagði Domenico Criscito, sem er nú leikmaður með Zenit St Petersburg í Rússlandi.

Ítalir eru í C-riðli á EM með Spáni, Írlandi og Króatíu. Þeir mæta Heims- og Evrópumeisturum Spánar í fyrsta leik 10. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×