Fótbolti

Cahill kjálkabrotinn og missir af EM | Kelly inn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Cahill kjálkabrotnaði í þessu samstuði við Joe Hart.
Cahill kjálkabrotnaði í þessu samstuði við Joe Hart. MYND/NORDIC PHOTOS GETTY
Enski varnarmaðurinn Gary Cahill verður ekki með enska landsliðinu á Evrópumeistaramótinu í Póllandi og Úkraínu sem hefst á föstudaginn. Hann kjálkabrotnaði í æfingaleik gegn Belgíu á Wembley í gær. Martin Kelly, varnarmaður Liverpool, hefur verið kallaður í liðið í hans stað.

John Terry meiddist einnig í 1-0 sigrinum á Belgíu en hann hefur staðist læknisskoðun og verður með Englandi á EM.

Cahill er þriðji leikmaður enska liðsins til að heltast úr lestinni í vikunni en áður höfðu miðjumennirnir Gareth Barry og Frank Lampard meiðst og komast því ekki með til Póllands og Úkraínu.

Micah Richards hafnaði því að vera til taks fyrir England ef á þyrfti að halda og kom því ekki til greina fyrir Cahill og ljóst þykir að Rio Ferdinand og John Terry geti ekki leikið saman og því var Kelly kallaður inn í hópinn.

Kelly er sjötti leikmaður Liverpool, sem hafnaði í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar í vetur, sem fer með enska landsliðinu á EM.

England hefur leik á EM gegn Frakklandi 11. júní í Donetsk. Talið var að Cahill myndi byrja leikinn í hjarta varnarinnar við hlið John Terry en nú er talið að Joleon Lescott verði við hlið Terry en Lescott lék mjög vel í vörn Engandsmeistara Manchester City í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×