Innlent

Blátt áfram lyklakippurnar geta verið hættulegar börnum

Sigríður Björnsdóttir, verkefnisstjóri samtakanna Blátt áfram.
Sigríður Björnsdóttir, verkefnisstjóri samtakanna Blátt áfram.
Bláu hjartalöguðu lyklakippurnar sem seldar voru í landsöfnunni Blátt áfram í byrjun mánaðarins geta verið hættulegar ungum börnum. Auðvelt er að taka kippurnar í sundur og getur það skapað hættu fyrir börn á aldrinum 0 til 3 ára þar sem hún inniheldur smáhluti svo sem lítil batterí og ljós.

Þetta kemur í tilkyningu frá Blátt áfram.

Samtökin harma mjög að seld hafi verið vara sem getur reynst börnum hættuleg þar sem tilgangur þeirra sé að vinna að forvörnum fyrir börn. Fólk er hvatt til að tryggja að lyklakippan komist ekki í hendur barna eða skila þeim aftur til samtakanna.

Tilkynninguna má lesa hér að neðan:

„Í landssöfnun Blátt áfram sem fram fór dagana 4.- 6. maí voru seldar bláar hjartalagaðar lyklakippur. Því miður hefur komið í ljós að lyklakippurnar geta verið hættulegar ungum börnum og harma samtökin það mjög. Hættan felst í því að hægt er að taka lyklakippuna í sundur með auðveldum hætti en það getur skapað hættu fyrir börn á aldrinum 0 - 3 ára þar sem lyklakippan inniheldur smáhluti svo sem lítil batterí og ljós.

Tilgangur Blátt áfram samtakanna er að vinna að forvörnum fyrir börn og því harma samtökin mjög að þeim hafi verið seld vara sem getur reynst börnum hættuleg. Blátt áfram hvetur því styrktaraðila sína til að tryggja að lyklakippan komist ekki í hendur barna eða skila þeim aftur til samtakanna.

Blátt áfram og Margt smátt ehf. hafa unnið náið með Neytendastofu í máli þessu og aflað sér upplýsinga um hvernig megi koma í veg fyrir að svona gerist aftur. Við nánari skoðun hefur komið í ljós að varan getur skapað hættu fyrir ung börn. Framangreindir ábyrgðaraðilar harma það mjög.

Um leið og við þökkum öllum þeim sem styrktu samtökin í landssöfnuninni heitum við því að Blátt áfram mun í framtíðinni ganga úr skugga um að vörur sem bera nafn samtakanna uppfylli allar öryggiskröfur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×