Enski boltinn

Kenny Dalglish hættur hjá Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kenny Dalglish er hættur störfum sem knattspyrnustjóri Liverpool. Þetta kemur fram í enskum fjölmiðlum í dag en hefur ekki verið staðfest af félaginu sjálfu.

Dalglish flaug til Boston fyrr í vikunni til viðræðna við John Henry, eiganda Fenway Sports Group sem keypti Liverpool haustið 2010. Dalglish tók við í janúar 2011 en frammistaða liðsins þótti valda vonbrigðum á nýliðnu tímabili.

Liverpool endaði í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 52 stig - 37 stigum á eftir toppliðunum Manchester City og Manchester United. Liðið varð að vísu enskur deildabikarmeistari og komst í úrslit ensku bikarkeppninnar, þar sem Dalglish og lærisveinar hans töpuðu fyrir Chelsea.

Forráðamenn Liverpool hafa ekki verið hræddir við að taka stórar ákvarðanir að undanförnu en fyrir stuttu var Frakkinn Damien Comolli rekinn úr starfi yfirmanns knattspyrnumála.

Dalglish er goðsögn í augum stuðningsmanna Liverpool. Hann kom til liðsins sem leikmaður árið 1977 og tók við sem knattspyrnustjóri árið 1985 og var í því starfi til 1991. Hann vann fjölda titla með liðinu, bæði sem leikmaður og knattspyrnustjóri.

Liverpool varð síðast Englandsmeistari árið 1990 en þá lék liðið undir stjórn Dalglish.

Uppfært 15.55: Liverpool greindi frá því á Twitter-síðu sinni að félagið muni senda frá sér tilkynningu á heimasíðu sinni og LFC TV klukkan 16.00.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.