Enski boltinn

Dalglish rekinn frá Liverpool: Gerðu þetta á heiðarlegan og virðulegan hátt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kenny Dalglish, fyrrum stjóri Liverpool.
Kenny Dalglish, fyrrum stjóri Liverpool. Mynd/Nordic Photos/Getty
Liverpool hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem kemur fram að félagið hafi sagt upp samningi sínum við Kenny Dalglish. Þar kemur fram að þessi ákvörðun hafi verið tekin að vel hugsuðu máli og leitin að nýjum stjóra sé komin strax í gang.

„Kenny verður alltaf meira en meistaraþjálfari og meistaraleikmaður í þessu félagi. Hann er að mörgu leyti hjartað og sálin í þessum klúbb. Hann stendur fyrir allt sem er gott við Liverpool Football Club. Hann setti alltaf félagið og stuðningsmennina í fyrsta sæti. Kenny verður alltaf hluti af fjölskyldunni á Anfield," segir eigandinn John Henry í fréttatilkynningunni.

Kenny Dalglish tjáir sig einnig í þessari fréttatilkynningu þar sem hann telur það hafa verið mikill heiður og forréttindi að hafa fengið tækifæri til að koma aftur til starfa hjá Liverpool. Hann þakkar þar öllum samstarfsaðilum sínum fyrir sem og öllum stuðningsmönnum félagsins.

„Auðvitað er ég vonsvikinn að vera yfirgefa félagið. Ég get samt sagt að eigendurnir gerðu þetta á heiðarlegan, kurteisan og virðulegan hátt sem sýnir hversu gott fólk kemur að þessum málum hjá félaginu," sagði Kenny Dalglish og endar síðan á eftirfarandi orðum.

„Ég vil þakka stuðningsmönnum Liverpool sérstaklega fyrir því þeir hafa alltaf stutt við bakið á mér og félaginu. Án þeirra hefðu hvorki ég né félagið náð neinum árangri," sagði Dalglish. Það er hægt að sjá fréttatilkynninguna á heimasíðu Liverpool með því að smella hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×