Enski boltinn

Mancini: Newcastle-leikurinn verður erfiðari en leikurinn við United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini, stjóri Manchester City og Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Roberto Mancini, stjóri Manchester City og Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, er óhræddur að beita hinum ýmsu brögðum í sálfræðistríðinu við Manchester United og nú hefur hann gefið það út að næsti leikur liðsins á móti Newcastle á St James' Park verði erfiðari en leikurinn á móti Manchester United á mánudaginn.

Manchester City vann þá nágranna sína 1-0 á heimavelli og tók toppsætið á hagstæðari markatölu. Liðin eiga næði tvo leiki eftir en flestir eru á því að vonir United-manna liggi í að City-liðið tapi stigum á móti sjóheitu liði Newcastle á sunnudaginn.

„Newcastle-leikurinn verður okkar erfiðasti leikur, erfiðari en United-leikurinn eins skrýtið og það hljómar. Þeir eru búnir að eiga frábært tímabil og eru að berjast um sæti í Meistaradeildinni. Þeir eru með einn af bestu stjórunum í boltanum og þetta verið erfiður leikur," sagði Roberto Mancini, stjóri Manchester City.

„Þessi leikur á sunnudaginn verður bara eins og úrslitaleikur í meistaradeildinni fyrir okkur. Við eigum tvo slíka leiki eftir, á móti Newcastle og QPR. Við verðum að halda einbeitingunni til 13. maí," sagði Mancini.

Mancini heldur því enn fram að United sé sigurstranglegra liðið en United-menn eiga eftir leikir við Swansea og Sunderland.

„Við höfum ekki afrekað neitt ennþá. Við erum vissulega á toppnum en við verðum að vinna þessa tvo leiki. Við verðum að spila vel og skora mörk ef við ætlum að taka titilinn. United mun ná í sex stig í sínum tveimur leikjum," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×