Íslenski boltinn

Fram og KR mætast í úrslitum Lengjubikarsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli
Fram hélt sigurgöngu sinni áfram í Lengjubikarkeppni karla eftir sigur á Stjörnunni í framlengdum undanúrslitaleik í kvöld, 2-1. Liðið mætir Íslands- og bikarmeisturum KR í úrslitaleiknum á laugardaginn.

Framarar unnu alla sjö leiki sína í riðlakeppninni og lögðu svo Þór frá Akureyri í fjórðungsúrslitunum. Með sigrinum á Stjörnunni í kvöld er liðið því búið að vinna níu leiki í röð í keppninni auk þess að fara taplaust í gegnum Reykjavíkurmótið fyrr í vetur.

KR-ingar höfðu betur gegn Breiðabliki í hinni undanúrslitaviðureigninni, 2-0. Kjartan Henry Finnbogason skoraði bæði mörk KR-inga í kvöld.

Tryggvi Sveinn Bjarnason kom Stjörnunni yfir í upphafi leiks gegn Fram en Hólmbert Aron Friðjónsson jafnaði metin á 28. mínútu. Þannig stóðu leikar allt til loka en Stefán Birgir Jóhannesson skoraði sigurmark Framara snemma í framlengingunni.

Fram og KR mættust einmitt einnig í úrslitum Reykjavíkurmótsins þar sem Framarar rúlluðu tvöföldum meisturum síðasta árs upp, 5-0. Úrslitaleikurinn í Lengjubikarnum fer fram í Kórnum á laugardaginn og hefst leikurinn klukkan 16.00.

Upplýsingar um markaskorara frá Fótbolta.net og Úrslitum.net




Fleiri fréttir

Sjá meira


×