Íslenski boltinn

Umfjöllun og viðtöl: KR deildabikarmeistari eftir sigur á Fram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Kórnum skrifar
Fram og KR höfðu ekki mæst í úrslitaleik í 15 ár í nokkurri keppni þegar liðin áttust við í úrslitum Reykjavíkurmótisns.
Fram og KR höfðu ekki mæst í úrslitaleik í 15 ár í nokkurri keppni þegar liðin áttust við í úrslitum Reykjavíkurmótisns. Mynd / Stefán
KR-ingar bættu enn einum titlinum í safnið í dag er liðið varð deildabikarmeistari eftir 1-0 sigur á Fram í úrslitaleik. Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði sigurmarkið í seinni hálfleik.

KR hefndi þar með fyrir 5-0 tapið í úrslitum Reykjavíkurmótsins en Fram hafði fram að þessu unnið alla mótsleiki sína á undirbúningstímabilinu.

Fyrri hálfleikur var heldur tíðindalítill en Fram átti þó hættulegri færi. Hólmbert Aron Friðjónsson átti til að mynda skalla sem hafnaði í stönginni.

KR-ingar voru svo sterkari aðilinn í seinni hálfleik en Þorsteinn Már, sem kom til liðsins frá Víkingi Ólafsvík eftir síðasta tímabil, skoraði sigurmarkið á 59. mínútu. Hann fékk sendingu frá Óskari Erni Haukssyni og skallaði boltann í netið af stuttu færi.

Framarar gerðu svo harða atlögu að marki KR síðustu mínútur leiksins en það áhlaup kom of seint. Sam Hewson var ekki í leikmannahópi liðsins í dag og þá fór Steven Lennon snemma af velli vegna meiðsla. Þeir hafa verið öflugir í leikjum Fram í vetur.

KR-ingar voru einnig án margra lykilmanna í dag og tefldu fram mörgum ungum köppum að þessu sinni.

Undirbúningstímabilinu er lokið hjá Fram en KR mætir FH í Meistarakeppni KSÍ á Laugardalsvellinum á þriðjudagskvöldið.

Leiknum var lýst beint á Boltavakt Vísis. Lýsinguna má lesa hér fyrir neðan.

Þorsteinn Már: Erum með góðan og breiðan hóp

Þorsteinn Már Ragnarsson var hetja KR í dag en hann skoraði sigurmarkið gegn Fram.

„Ég er auðvitað hæstánægður með þetta og það er gaman að hafa átt þátt í þessum sigri í dag,“ sagði Þorsteinn við Vísi eftir leikinn. „Þetta var hörkuleikur tveggja góðra liða í dag og hefði sigurinn getað dottið hvoru megin. En það var gott að við náðum að klára þetta.“

„Þetta var góður leikur hjá okkur, sérstaklega í seinni hálfleik. Við héldum boltanum vel innan liðsins og allir lögðu sig virkilega vel fram.“

KR stillti upp mörgum ungum og óreyndum leikmönnum í liði sínu í dag. „Það sýndi sig að við erum með mjög góðan og breiðan hóp. Það eru nokkrir sem eru í meiðslum og voru tæpir fyrir þennan leik í dag.“

Hann gekk til liðs við KR frá Víkingi í Ólafsvík eftir síðastliðið tímabil.

„Ég er mjög sáttur við að hafa tekið þetta skref. Strákarnir eru frábærir og hafa tekið mér mjög vel,“ sagði hann. „Ég er orðinn mjög spenntur fyrir tímabilinu og ég hlakka mjög til.“

Þorvaldur: Óþarfi að tapa leiknum

„Það var óþarfi að tapa þessum leik enda fannst mér þeir ekki skapa sér mörg færi í leiknum,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, í dag.

„Þetta var mjög hægur leikur eins og þeir vilja verða hér innanhúss. Það var erfitt að ná upp hröðu spili. Mér fannst við vera nokkuð þéttir fyrir og skapa nokkur færi en því miður þá datt þetta ekki okkar megin í dag.“

Fram tapaði í dag sínum fyrsta leik á undirbúningstímabilinu en fram að leiknum í dag hafði liðið unnið fjórtán mótsleiki og gert eitt jafntefli.

„Ég hef verið ánægður með undirbúningstímabilið en ég hef reynt að taka bara eina viku fyrir í einu. Ég hef viljað halda mönnum á tánum og passa upp á meiðsli og annað slíkt.“

„Svo sjáum við til hvernig mótið byrjar í vor. Við þurfum að hugsa fyrst og fremst um að koma okkur sem fyrst inn í mótið því ég þekki það að fyrri reynslu að það getur svo sem allt gerst.“

Steven Lennon var tekinn meiddur af velli í fyrri hálfleik og vissi Þorvaldur ekki hversu alvarleg meiðslin væru. „Hann var aumur fyrir leikinn en langaði til að prófa að spila. Við munum reyna að koma honum í lag sem fyrst auðvitað en það verður að koma í ljós hvernig það gengur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×