Innlent

Þjóðverjar gistu í tjöldum í Bolungarvík - snjóskaflar allt í kring

„Hér er hlýtt og gott að vera," segir meðlimur í þýskum skíðaklúbbi sem skreið uppúr svefnpoka á tjaldstæðinu í Bolungarvík í morgun.

það væri nú kannski ekki í frásögur færandi að maður hefði gisti í tjaldi í apríl á Íslandi nema fyrir það eitt að það var snjóþungt í Bolungarvík í morgun. Snjóskaflarnir hreinlega yfirgnæfðu tjöldin og Hafþóri lék forvitni á að vita hverjir leyndust þar inni.

„Við erum úr Alpaklúbbnum í Freiburg. Við skipulögðum ferð hingað til Íslands til að skíða og njóta náttúrufegurðarinnar. Þess vegna erum við hingað komin." segir Philip Schneider frá Þýskalandi.

Hópurinn hefur verið að skíða á Vestfjörðum undanfarið og sumir að koma hingað til lands í þriðja sinn. Philip segist kunna betur við snjóinn en rigninguna en Rokkhátíð Alþýðunnar, Aldrei fór ég suður fór fram um helgina við mikla hrifningu skíðamanna.

„Besti dagurinn var þegar rokkhátíðin var haldin á Ísafirði. Við gátum notið tónlistarinnar á leiðinni upp brekkurnar og þegar við skíðuðum niður. Það var aðeins um 5 mínútna gangur með skíðabúnaðinn þangað sem rokkhátíðin var haldin. Allir voru mjög rólegir og við skemmtum okkur afar vel þar," segir Philip hæstánægður með upplifunina.

En afhverju ákvað hópurinn að gista í tjaldi í þessu brjálaða veðri, en margir sátu veðurtepptir á Vestfjörðum um helgina.

„Það var ekki vegna fjárskorts. Okkur var boðið að gista í húsunum en þá hefðum við þurft að taka niður tjöldin. Það er mjög þægilegt, hlýtt og kósí hér." segir Philip að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×