Innlent

Fornmunir á lóð Landspítalans afhentir Þjóðminjasafninu

Korðinn sem fannst við uppgröftinn hefur líklega verið í eigu ábúenda á Grænuborg.
Korðinn sem fannst við uppgröftinn hefur líklega verið í eigu ábúenda á Grænuborg. Mynd nyrlandspitali.is
Hátt í hundrað gripir sem fundust við fornleifauppgröft á lóð Landspítala við Hringbraut hafa verið færðir Þjóðminjasafni. Gripirnir, sem flestir eru úr keramik og gleri, fundust við fornleifarannsóknirnar á lóðinni í fyrrahaust. Meðal annars fundust ölflöskur og skrautsverð.

Vala Björg Garðarsdóttir, fornleifafræðingur var uppgreftrarstjóri rannsóknarinnar. Hún gekk út á að kanna svæði sunnan við gamla Landspítalann. Þar stóð bærinn Grænaborg í um eitt hundrað ár, frá um 1830-1930, en flestir gripanna sem fundust eru frá þeim tíma.

Vala segir að það sem helst hafi komið á óvart hafi verið að finna gamla og veglega fjárborg undir bænum.

Meðal annarra áhugaverðra muna sem fundust var gamall korði eða skrautsverð. Sá gæti verið mun eldri en Grænuborgarbærinn eða á bilinu 400-600 ára gamall, að því er fram kom þegar gripirnir voru afhentir Þjóðminjasafninu.

Líka fundust nýrri gripir við uppgröftinn og sumir þeirra tengjast að líkindum byggingu Gamla Landspítalahússins, en hún hófst í kringum 1925.

Vala segir að t.d. hafi fundist þakflísar eins og nýttar voru í gamla spítalahúsið og sömuleiðis töluvert af rúðugleri og ölflöskum. Líklega hafa verkamenn svalað sér á ölinu úr þeim þegar þeir unnu að því að reisa gamla Landspítalahúsið við Hringbraut fyrir hátt í níutíu árum.

Nánar má fræðast um málið á heimasíðu nýs Landspítala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×