Enski boltinn

Heiðar spilar með varaliði QPR í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heiðar Helguson.
Heiðar Helguson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Heiðar Helguson er allur að koma til eftir nárameiðsli og mun spila með varaliði Queens Park Rangers í kvöld þegar liðið mætir West Ham í æfingaleik. Þetta eru góðar fréttir fyrir Mark Hughes enda eru nokkrir framherjar liðsins að glíma við meiðsli eða leikbönn.

Heiðar er ekki sá eini sem snýr til baka í þessum leik í kvöld því DJ Campbell verður einnig með. QPR vann 2-1 sigur á Arsenal um síðustu helgi þar sem liðið spilaði 4-5-1 með Bobby Zamora einan frammi.

Heiðar spilaði síðast með QPR í ensku úrvalsdeildinni á móti Wigan 21. janúar síðastliðinn og skoraði þá eitt mark í 3-1 sigri. Það var áttunda mark Heiðars í 15 deildarleikjum á þessu tímabili. Heiðar hefur ekkert spilað með aðalliði QPR síðan í bikartapi á móti Chelsea 28. janúar 2012.

Queens Park Rangers heimsækir Manchester United á Old Trafford á sunnudaginn kemur og tekur síðan á móti Swansea City þremur dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×