Innlent

Mun taka áratugi að losa höftin að óbreyttu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Prófessor í hagfræði og forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík segir að Íslendingar verði áratugi að aflétta höftunum miðað við hvernig gjaldeyrisútboðsleið Seðlabankans hefur heppnast til þessa.

Samkvæmt gildandi lögum eiga að gjaldeyrishöftin að renna út á næsta ári. Seðlabanki Íslands hefur áætlun um losun haftanna, en hluti af þessari áætlun er svokölluð útboðsleið, þar sem Seðlabankinn býðst til að kaupa evrur af fjárfestum í skiptum fyrir krónur.

Í nýlegu slíku útboði voru gerð tilboð í ríkisskuldabréf í löngum flokki fyrir tæplega 71 milljón evra. Seðlabankinn gerði hins vegar bara saminga um 2,5 prósent fjárhæðarinnar og var tilbúinn að selja krónur á genginu 239 krónur fyrir evru.

Hafa litla sem enga trú á krónunni

Í sumum tilvikum var himinn og haf á milli hugmynda fjárfesta og Seðlabankans um verðmæti evrunnar og vildu sumir þeirra fá allt að 380 krónur fyrir hverja evru sem er langt yfir aflandsgengi evrunnar sem er 245. Þetta veitir vísbendingar um að þessir fjárfestar verðleggi evrur sínar mjög hátt og hafi í raun afar litla trú á krónunni.

Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við viðskiptadeild HR, var gestur okkar í nýjasta þættinum af Klinkinu.

Hefur þessi leið misheppnast? "Ja, mér finnst þetta segja það. Þetta er svo lágt að þetta jafngildir því að lífeyrissjóðirnir vilji ekkert taka þátt í þessu. Það voru 2,5 prósent sem voru um 70 milljónir evra. Við skulum ekki gleyma því að heildarvandinn sem er við að etja, aflandskrónurnar, er um sex milljarðar evra. Hátt í sextíu prósent af landsframleiðslu Íslands. Með þessum hraða, jafnvel þó útboðið hefði heppnast, þá sæjum við fram á mjög langt ferli þar sem við værum að vinda ofan af þessu. Jafnvel áratugi," segir Friðrik Már. Hann sagði að það kæmi á óvart hvað lífeyrissjóðirnir "færu langt niður" með krónuna og það lýsti miklu vantrausti á þessu ferli öllusaman, en Friðrik situr sem varamaður í bankaráði Seðlabanka Íslands.

Nýjasta þáttinn af Klinkinu má nálgast hér. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×